Bjór, Drykkir
Leave a Comment

Jólabjórarnir 2014

Í ár bjóða Vínbúðirnar upp á metfjölda tegunda jólabjóra; 27 tegundir sem verða síðan 29 um næstu mánaðarmót. Það er því úr mörgu að velja og eflaust geta allir fundið eitthvað að sínum smekki, svo framarlega sem þeir drekki bjór. Líkt og áður þá komu vínpennar Matviss saman og blindsmökkuðu jólabjórana. Að þessu sinni nutum við aðstoðar tveggja sérlegra bjóráhugamanna, þeirra Arnars Bjarka Jónssonar og Birnu Dísar Benjamínsdóttur, en sú síðarnefnda kom með afar þörf kvenleg sjónarmið inn í þennan afskaplega karlkyns viðburð.

Jólabjórar 3

Smakkaðir voru allir jólabjórarnir sem seldir eru í Vínbúðunum fyrir þessu jól, fyrir utan þær tvær tegundir sem ekki eru komnar til landsins. Það eru Anchor Our Special Ale 2014 og Shepherd Neame Christmas Ale 2014 og var þeirra sárt saknað, enda var Anchor valinn jólalegasti bjórinn í fyrra, auk þess að vera alveg fyrirtaks bjór. Engu að síður voru 27 tegundir og þetta því yfirgripsmesta bjórsmakk netmiðils í ár, enn sem komið er. Að smakkinu loknu voru þrjár aðalviðurkenningarnar veittar, en það var fyrir besta bjórinn, jólalegasta bjórinn, og versta bjórinn. Athygli vakti að dómnefnd var einróma í vali sínu í öllum þremur flokkum.

Jólabjórar 5

Helstu niðurstöður:

 • Besti bjórinn: Almáttugur Steðji
 • Jólalegasti bjórinn: Ölvisholt Jólabjór
 • Versti bjórinn: Víking Jólabjór
 • Bestur fyrir peninginn: Jóla Gull
 • Kom mest á óvart: Meteor Bière de Noël
 • Áhugaverðastur: Þvörusleikir
 • Mestu vonbrigðin: Red Hook Winter Hook
 • Öðruvísi jólalegur: Brew Dog Hoppy Christmas
 • Bestur með mat: Kaldi Jólabjór / Samuel Adams Winter Lager

Jólabjórar 6

Dómnefnd trúði vart eigin eyrum þegar tilkynnt var að bjórinn sem hún hafði valið bestan væri Almáttugur Steðji, fyrsta ölið sem Steðji bruggar, enda hafði hún verið sannfærð um að hér væri einhver svaka flottur erlendur bjór á ferð. Almáttugur Steðji þótti skara framúr í bragðgæðum og þótti einnig fanga árstíðina vel og vera vandað brugg. Skammt á hæla Steðja koma bock-arnir tveir, Víking Jóla Bock og Einstök Doppelbock,  sem fanga þessi sömu atriði og Steðjinn en þóttu standa honum ögn aftar í bragðgæðum. Dómnefn valdi Ölvisholt Jólabjór jólalegasta bjórinn, enda má með sanni kalla hann jól í glasi. Svakalega flottir kryddaðir tónar láta hann minna á jólaglögg. Maður drekkur ekki marga en þeir sem maður drekkur færa jól í hjarta. Næst jólalegastur þótti Almáttugur Steðji. Dómnefnd valdi svo Víking Jólabjór versta bjórinn og olli það miklum vonbrigðum að þar væri á ferð þessi gamli kunningi, enda oft verið betri. Næst verstur þótti Winter Hook frá Red Hook og fannst dómnefnd hann óskemmtilega rammur með vont eftirbragð, aftur reyndust það mikil vonbrigði.

Jólabjórar 4

Dómnefnd þótti einnig rétt að veita þeim bjórum viðurkenningar sem sköruðu framúr að einhverju leiti eða höfðuðu sérstaklega til dómnefndar. Ber þar fyrst að nefna Jóla Gull, en dómnefnd var sannfærð um að þar væri á ferð mun „flottari“ bjór. Það ætti þó að hætta að koma fólki á óvart að Gullið komi með góða árstíðarbundna bjóra, enda hafa þeir nú átt þá marga í röð. Jóla Gullið er þó þeirra bestur hingað til og minnir á góða belgíska bjóra; allra besti bjórinn af þessum almennu jólabjórum og dómnefnd segir hann því bestan fyrir peninginn. Fast á hæla hans kemur Harboe Jule Bryg, en fyrir litlar 269kr á dósina fær maður sætan og góðan bjór með skemmtilegum epla og ávaxtatónum. Næst ber að nefna Bière de Noël frá Meteor sem kom dómnefnd mikið á óvart, enda vissi hún ekki við hverju var að búast frá þessum franska og lítt þekkta bjór. Hann reyndist sérlega sætur og fallegur bjór sem færir epli og kanil í bland við franskt ger. Reglulega góður bjór og sá sem dómnefnd taldi koma mest á óvart. Þar á eftir kom Harboe sem, líkt og í fyrra, þótti fara fram úr væntingum. Dómnefnd valdi Þvörusleiki sem áhugaverðasta bjórinn, enda humlað rauðöl ekki það fyrsta sem kemur í hugann þegar minnst er á jólabjór. Citra humlarnir gefa æðislega sítrustóna og eikarþroskunin gerir mikið fyrir hann; klárlega eitt vandaðasta bruggið í flórunni. Annar áhugaverðastur þótti Snowball Saison frá To Øl, vel humlaður en þó í góðu jafnvægi með skemmtilega nálgun á hugtakið „jólabjór“. Vonbrigðin á ár taldi dómnefnd vera Winter Hook frá Red Hook en þar var búist við mun betur heppnuðum bjór en raun bar vitni. Einnig ber þar að nefna Malt jólabjórinn sem dómnefnd fannst hálfgert flopp. Hrósa verður Hoppy Christmas frá Brew Dog fyrir að fara gjörólíka en sérlega vel heppnaða leið að því að fanga stemningu jólanna. Það sem einkennir bjórinn eru fyrst og fremst humlar, en humlunin framkallar æðislega tóna af barrnálum og furu auk skemmtilegra krydda. Hér er á ferðinni jólalegasti ójólalegi bjórinn, ef svo má að orði komast. Að lokum taldi dómnefnd að Kaldi Jólabjór og Samuel Adams Winter Lager væru heppilegastir til matarpörunar þegar horft er til jólamatarhefða á Íslandi.

Jólabjórar 2

Hér má sjá niðurstöður smakksins (bjórar í þeirri röð sem þeir voru smakkaðir):

Albani Jule Bryg

Dimmgullinn með snert af hunangi og sítrusbeiskju. Dýpt og fylling. Pétur segir: „Er ekki að grípa mig.“ Egill segir: „Svo sem ekkert spennandi en sæmilegur bjór.“

Víking Jólabjór

Almennur lager. Brennistein í lykt og bragði með brennda karamellutóna. Egill segir: „Ekki eitthvað sem ég myndi gefa vinum mínum að drekka.“ Birna segir: „Myndi ekki fá mér annan.“

 • Versti bjórinn

Tuborg Christmas Brew

Léttur í nefi með snert af hunangi og karamellu. Einnig léttur í munni með jólalega sætu. Sindri segir: „Ágætis sopi.“ Egill segir: „Alls ekki vondur bjór en líður fyrir skort á karakter.“

Samuel Adams Winter Lager

Fallegur á litinn með karamellu, sætu malti og nettum viðartónum. Birna segir: „Ljós og léttur en með bragð og x-faktor.“ Arnar segir: „Góður söturbjór.“

 • Bestur með mat

Steðji Jólabjór

Fallega dimmgullinn á lit með haug af lakkrís í lykt og bragði en einnig viðartónum, leðri og nettum ristuðum tónum. Sindri segir: „Reglulega góður.“ Egill segir: „Flottur bjór, langar í meira.“

Thule Jólabjór

Mildir sætir tónar með góðu malti, karamellu og lakkrís. Sindri segir: „Jólabjór en skortir persónuleika.“  Arnar segir: „Fremur daufur.“

Royal Blár

Rafgullinn og léttur í nefi með hunang, sætu og snert af sítrus. Sindri segir: „sæmilegur bjór“. Egill segir: „Myndi ekki sækjast eftir honum.“

Jóla Gull

Lætur mikið yfir sér með flott belgískt ger í lykt og bragði og kryddaða sítrustóna. Sindri segir: „Bestur hingað til“. Pétur segir: „Gæti sötrað hann í allt kvöld.“

 • Bestur fyrir peninginn

Harboe Jule Bryg

Svaka sætir ávaxtatónar og epli er það sem einkennir þennan bjór. Egill segir: „Ágætis bjór, en svolítið sumarlegur.“ Birna segir: „Góður.“

 • Góður fyrir peninginn
 • Kom á óvart

Royal Hvítur

Lítil lykt en sætir ávextir og mandarínur í bragði. Birna segir: „Of sætur fyrir mig.“ Arnar segir: „Það er sykurkeimur á vörunum lengi á eftir.“

Kaldi Jólabjór

Fallega jarpur á lit með æðislega karamellutóna, ristaða angan, lakkrís og jólaleg krydd. Arnar segir: „Upplifun fyrir bragðlaukana.“ Birna segir: „Þetta er jólabjór!“

 • Bestur með mat

Föroya Bjór Jólabryggj

Gullinnbrúnn í glasi með rjómakaramellu, malt og hunang. Grösugur. Pétur segir: „Er á réttri leið en kannski ekki kominn á leiðarenda.“ Egill segir: „Fær punkta fyrir viðleitni.“

To Øl: Snowball Saison

Ljós og skýjaður með fullt af humlum í lyktinni. Fura, nett sæta, greninálar, gott jafnvægi. Sindri segir: „Geggjaður bjór!“ Egill segir: „Ekki jólalegur frekar en grastugga en verulega góður bjór.“

 • Áhugaverður

Gæðingur Jólabjór

Flottur í glasi. Ristaðir tónar, viður og kaffikorgur. Mikil dýpt í bragði. Birna segir: „Ánægð með þennan.“ Arnar segir: „Ágætis desemberfílingur.“

Brew Dog: Santa Paws

Mahónílitur. Anís, ristaðir tónar, kaffi, krydd og meira anís. Arnar segir: „Þungur en góður.“ Egill segir: „Margslunginn bjór.“

Almáttugur Steðji

Dimm rauður. Púðursykur, lakkrís, kryddaðir tónar. Mikil dýpt, mikið í gangi en gott jafnvægi. Mikil fylling. Birna segir: „Vá! Þessi er frábær.“ Pétur segir: „Uppáhalds.“

 • Bestur
 • Jólalegur

Meteor: Bière de Noël

Sætur á bragðið með epli, kanil og sveitager. Blómlegur. Egill segir: „Frábær bjór!“ Sindri segir: „Svaka franskur.“

 • Kom mest á óvart

Mikkeller: Hoppy Lovin‘ Christmas

Skýjaður og gruggugur með humlana alsráðandi. Blómlegur, flókinn, snert af einiberjum. Pétur segir: „I like it!“ Arnar segir: „Bragðsprengja.“

Brew Dog: Hoppy Christmas

Tær og gullinn. Jólaleg krydd, sæta, hunang, barr, fura, sítrus, blómlegir tónar. Sindri segir: „Jólalegur á furðulegan hátt.“ Egill segir: „Finnst eins og mér eigi ekki að finnast hann jólalegur en hann er það samt.“

 • Öðruvísi jólalegur

Þvörusleikir

Rauðbrúnn og fallegur í glasi. Mangó, sítrus, kókós og vanilla. Mikil dýpt og mikið að gerast. Mikil fylling. Sindri segir: „Mjög góður.“ Pétur segir: „Verður drukkinn fram á nýja árið.“

 • Áhugaverðastur

Malt Jólabjór

Fallegur á litinn. Mikil og lofandi lykt en léttur í munni. Malt, malt og aftur malt. Egill segir: „Vonbrigði.“ Birna segir: „Svekkjandi.“

 • Vonbrigði

Red Hook: Winter Hook

Kastaníubrúnn. Brennd karamella og ristaðir tónar í lykt. Beiskja og ristaðir tónar ráðandi í bragði. Arnar segir: „Beiskjan drepur þetta.“ Egill segir: „Lyktin skrifar ávísanir sem bragðið á ekki inneign fyrir.“

 • Mestu vonbrigðin
 • Vondur

Víking Jóla Bock

Kastaníubrúnn. Lítill í nefi með malti og beisku súkkulaði. Sætir og skemmtilegir tónar sem þróast með hverjum sopa. Birna segir: „Jebb, þetta er komið!“ Sindri segir: „Mjög góður!“

 • Mjög góður

Mikkeller: Red White Christmas

Gullinn og skýjaður með sætuvott og haug af blómlegum humlum. Þurrkaðir ávextir. Birna segir: „Vandaður bjór.“ Arnar segir: „Góður bjór en ekki jólalegur.“

Ölvisholt Jólabjór

Dökkur á lit. Kryddsprengja í lykt og bragði, en á góðan hátt. Negull og kanill fyrirferðamikil, gott jafnvægi. Birna segir: „Köben og jólatívolí“ Sindri segir: „Jól í glasi.“

 • Jólalegastur

Ölvisholt Jóli

Dökkur og gruggugur með krydd í lykt og bragði. Negull og piparkökur. Egill segir: „Vantar fínstillingu.“ Pétur segir: „Of mikið krydd.“

Einstök Doppelbock

Sæt og góð lykt með súkkulaði og karamellu. Nett beiskja en góð með kryddaða tóna. Birna segir: „Brilliant!“ Sindri segir: „Væri til í að drekka þennan allt árið.“

 • Mjög góður

 

Dómnefnd:

 • Sindri Þór Hilmarsson – Eigandi Matviss
 • Egill Óskarsson – Bjórpenni Matviss
 • Pétur Darri Sævarsson – Viskípenni Matviss
 • Birna Dís Benjamínsdóttir – Bjóráhugamaður
 • Arnar Bjarki Jónsson – Bjóráhugamaður

Tags: besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 besti jólabjór 2014 

Hvað finnst þér?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s